Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 232/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. desember 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 232/2010.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 6. desember 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A að stofnunin hefði á fundi sínum þann 1. desember 2010 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 19. október 2010. Umsókn kæranda var hafnað á grundvelli 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem Vinnumálastofnun taldi að kærandi hefði látið hjá líða að tilkynna um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi, innan sjö virkra daga, eða þess frests sem kveðið er á um í 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 30. nóvember 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 1. nóvember 2009. Kærandi sótti um leyfi til að fara til útlanda í atvinnuleit, sbr. VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar, og fór til Danmerkur í atvinnuleit þann 8. janúar 2010.

Fyrir liggur E-303 vottorð, dags. 8. janúar 2010, útgefið af Vinnumálastofnun þar sem kæranda var veitt heimild til að vera í atvinnuleit erlendis til 7. apríl 2010, sbr. 1. mgr. 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í málinu liggur einnig fyrir bréf til kæranda frá Arbejdsdirektoratet, dags. 22. janúar 2010, þar sem fram kemur að greiðsla í atvinnutryggingasjóð í Danmörku sé valkvæð. Kærandi réði sig til starfa í Danmörku þann 1. mars 2010 og var í því starfi til 14. október 2010 samkvæmt vottorði vinnuveitanda, dags. 22. nóvember 2010. Kærandi flutti aftur til Íslands þann 17. október 2010 samkvæmt flutningsvottorði frá Þjóðskrá Íslands. Þann 19. október 2010 sótti hann aftur um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun.

Vinnumálastofnun fjallaði um umsókn kæranda á fundi stofnunarinnar þann 28. október 2010. Var afgreiðslu umsóknar frestað og óskaði stofnunin eftir því að kærandi færði fram E-301 vottorð til staðfestingar á áunnu starfs- og tryggingatímabili erlendis. Vinnumálastofnun barst í kjölfarið launaseðlar frá vinnuveitanda kæranda í Danmörku. Þann 6. desember 2010 var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur á grundvelli 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með vísan til 43. gr. sömu laga.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. desember 2010, segir kærandi að Vinnumálastofnun hafi synjað umsókn hans um atvinnuleysisbætur sökum þess að hann hafi tilkynnt of seint um komu sína til landsins. Kærandi mótmælir því þar sem hann hafi verið við störf í Danmörku til 14. október 2010 en hafi sótt um atvinnuleysisbætur og tilkynnt heimkomu þann 19. október 2010, innan sjö virkra daga. Kærandi segist ekki skilja úrskurð Greiðslustofu Vinnumálastofnunar sem hann sé að kæra og umrædd ákvörðun stofnunarinnar eigi sér ekki stoð í lögum um atvinnuleysistryggingar. Kærandi bendir jafnframt á að ekki sé að finna neinar upplýsingar varðandi þessi atriði í þeim upplýsingum sem stofnunin veitir þeim sem hyggjast fara til útlanda í atvinnuleit. Kærandi bendir á að hann hafi farið til útlanda með heimild samkvæmt E-303 vottorði útgefnu af Vinnumálastofnun og hann hafi upplýst Vinnumálastofnun er hann hafi hafið störf í Danmörku. Kærandi segir að hann hafi þurft að segja upp starfi sínu í Danmörku eftir rúmlega sjö mánuði vegna fjölskylduaðstæðna. Hann bendir á að samkvæmt upplýsingum ráðgjafa á kynningarfundi Vinnumálastofnunar eigi hver íslenskur þegn geymdan bótarétt í tvö ár og telur kærandi sig vera innan tilskilinna marka. Kærandi kveðst hafa farið eftir öllum fyrirmælum Vinnumálastofnunar er hann fór til Danmerkur í atvinnuleit og hann hafi tilkynnt vinnumiðlun í C í Danmörku er hann réði sig í vinnu á því þriggja mánaða tímabili sem tilgreint sé í E-303 vottorði frá Vinnumálastofnun.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. maí 2011, áréttar stofnunin að E-303 vottorð feli í sér staðfestingu Vinnumálastofnunar á bótarétti atvinnuleitanda í íslenska atvinnuleysistryggingakerfinu, sem gefi umsækjendum kost á því að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan þeir eru í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, sbr. 1. og 4. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun vísar einnig til 46. gr. laganna þar sem kveðið sé á um tilkynningu um heimkomu. Þar segi að sá sem hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur skv. 42. gr. laganna og snúi aftur til landsins til að halda áfram atvinnuleit skuli tilkynna um það skriflega til Vinnumálastofnunar innan sjö virkra daga frá því að tímabilinu skv. 43. gr. hafi lokið, eða komudegi, hafi hinn tryggði komið til landsins áður en tímabilinu lauk. Láti hinn tryggði hjá líða að tilkynna um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi, falli greiðslur atvinnuleysisbóta niður frá og með þeim degi er tímabili skv. 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ljúki.

Vinnumálastofnun vísar til þess að kærandi fór til útlanda þann 8. janúar 2010. Kærandi hafi haft heimild til atvinnuleitar erlendis skv. 1. mgr. 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í þrjá mánuði, en því tímabili hafi lokið þann 7. apríl 2010, samkvæmt E-303 vottorði kæranda. Vinnumálastofnun vísar til þess að kærandi hafi hafið störf erlendis á tímabilinu og því ekki tilkynnt um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi innan þess frests sem kveðið sé á um í 1. mgr. 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um áframhaldandi atvinnuleit á Íslandi innan gildistíma vottorðsins, hafi greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda fallið niður frá og með þeim degi er tímabili skv. 43. gr. laganna hafi lokið.

Vinnumálastofnun vísar til 1. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið sé á um að launamaður teljist að fullu tryggður hafi hann starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Í 23. gr. laganna sé atvinnuleitanda veitt heimild til að geyma áunnar atvinnuleysistryggingar í allt að 24 mánuði, frá þeim degi er viðkomandi sannanlega hætti störfum. Í 5. mgr. 23. gr. laganna komi hins vegar skýrt fram að ákvæðið eigi ekki við um þá sem fái greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laganna fyrir sama tímabil. Ljóst sé því að ekki sé gert ráð fyrir að heimilt sé að geyma áunnar atvinnuleysistryggingar í þeim tilvikum þar sem umsækjandinn hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða farið til annarra aðildarríkja á Evrópska efnahagssvæðinu og fengið greiddar atvinnuleysisbætur á meðan.

Samkvæmt 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé Vinnumálastofnun veitt heimild til að líta til starfstímabils umsækjanda í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, við mat á rétti hans til atvinnuleysistrygginga. Sé það skilyrði að störf umsækjanda hafi veitt honum rétt samkvæmt lögum aðildarríkis um atvinnuleysistryggingar. Umsækjandi þurfi að færa sönnur á því að hann teljist tryggður samkvæmt lögum aðildarríkis með þar til gerðu vottorði um áunnin starfstímabil og tryggingatímabili, þ.e. E-301 vottorði. Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þurfi E-301 vottorð að fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur skv. 9. gr. laganna. Vinnumálastofnun telur að kærandi hafi ekki sýnt fram á með E-301 vottorði frá Danmörku að störf hans þar í landi hafi veitt honum rétt samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Hann hafi ekki fært fram staðfestingu á því að hann hafi greitt í atvinnutryggingasjóð í Danmörku og því sé ekki unnt að taka tillit til starfstímabils kæranda erlendis í ávinnslu bótaréttar hér á landi.

Vinnumálastofnun bendir á að er framangreindum undanþáguheimildum sleppi, taki við almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laganna teljist launamaður sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar vera tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Telji Vinnumálastofnun að svo kærandi geti talist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins á ný, þurfi hann að starfa á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti þrjá mánuði, svo hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar er því að hafna beri umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar dags. 9. maí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. maí 2011. Þann 2. september 2011 bárust dönsk og ensk gögn með upplýsingum um félagsleg réttindi og atvinnuleysistryggingar. Gögnin staðfesta ekki að kærandi hafi greitt í danskan sjóð sem er sambærilegur hinum íslenska atvinnuleysistryggingasjóði.

 

2.

Niðurstaða

Lög um atvinnuleysistryggingar gilda um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Lögin eru því reist á þeirri forsendu að þau eigi að þjóna hagsmunum íslensk vinnumarkaðar, þ.e. veita launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum fjárhagslega aðstoð þegar þeir verða atvinnulausir. Það er ekki markmið laganna að tryggja þeim atvinnuleysisbætur sem hafa sinnt störfum á erlendum vinnumarkaði. Jafnframt er það ekki tilgangur laganna að veita þeim aðstoð í atvinnuleit sem hafa sinnt störfum á erlendum vinnumarkaði.

Þessar meginreglur laga um atvinnuleysistryggingar eru tilgreindar í 1. og 2. laganna. Frá þessum meginreglum eru að finna undantekningar, meðal annars vegna náins samstarfs íslenskra stjórnvalda á þessu sviði við önnur aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Kveðið er á um þessar undantekningar í VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar getur atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun þótt hann sé í atvinnuleit í öðru landi. Til þess að svo megi verða verður atvinnuleitandi að uppfylla margvísleg skilyrði. Sé heimildinni beitt er hún skilyrt með ýmsum hætti. Þannig segir í 1. mgr. 43. gr. laganna að gildistími heimildar af þessu tagi sé þrír mánuðir frá brottfarardegi eða eftir atvikum sá tími sem atvinnuleitandi hefur eftir á einu og sama bótatímabili skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna er heimilt að greiða atvinnuleitanda atvinnuleysisbætur á grundvelli 1. mgr. 43. gr. laganna, hafi atvinnuleitandi fengið tímabundið starf í öðru aðildarríki í skemmri tíma en sem eftir er af tímabili því sem getið er í 1. mgr. lagagreinarinnar eða segir upp starfi eða missir það af gildum ástæðum innan þess tíma.

Í þessu máli liggur fyrir að kærandi fór 8. janúar 2010 til Danmerkur í atvinnuleit. Áður en hann fór utan fékk hann heimild til að fá greiddar bætur úr íslenska atvinnuleysistryggingasjóðnum, þrátt fyrir dvöl sína erlendis. Heimild þessi rann út 7. apríl 2010 nema eitthvað sérstakt kæmi til, sbr. 1. og 2. mgr. 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt vinnuveitendavottorði, dags. 22. nóvember 2010, starfaði kærandi sem rútubílstjóri í sveitarfélaginu B í Danmörku frá 1. mars til 14. október 2010, Samkvæmt vinnuveitendavottorðinu voru starfslok kæranda skýrð með því að dregið hafi verið úr verkefnum að loknu útboði. Samkvæmt flutningsvottorði Manntals sveitarfélagsins Y, dags. 19. október 2010, kom kærandi til Íslands 17. október 2010. Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta 19. október sama ár en umsókn hans var synjað á grundvelli svohljóðandi 1. mgr. og 2. mgr. 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

 Hinn tryggði sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur skv. 42. gr. og snýr aftur til landsins til að halda áfram atvinnuleit sinni á innlendum vinnumarkaði skal tilkynna um það skriflega til Vinnumálastofnunar innan sjö virkra daga frá því að tímabili skv. 43. gr. lauk eða komudegi hafi hinn tryggði komið til landsins áður en tímabilinu lauk. Atvinnuleysistrygging hans er þá sú sama og hún var áður en hann fór utan í atvinnuleit nema annað leiði af lögum þessum.

 Láti hinn tryggði hjá líða að tilkynna um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi innan tímamarka 1. mgr. falla greiðslur atvinnuleysisbóta niður frá og með þeim degi er tímabili skv. 43. gr. lauk eða hann hætti atvinnuleit í öðru aðildarríki hafi hann sannanlega hætt leitinni áður en tímabilinu lauk. Skal hinn tryggði þá sækja um atvinnuleysisbætur að nýju skv. 9. gr.

Þegar þessar lagareglur eru skýrðar, verður að byggja á því að þær eigi aðallega við í þeim tilvikum þar sem atvinnuleitandi fer erlendis í atvinnuleit, en finnur ekki starf við hæfi innan þess tímabils sem getið er í 1. mgr. 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Á grundvelli þessara lagareglna geta atvinnuleitendur treyst því að fá bætur áfram greiddar frá íslenska atvinnuleysistryggingasjóðnum enda haldi þeir áfram að uppfylla hin lögbundnu skilyrði. Ljóst er að kærandi uppfyllir ekki það skilyrði að hafa sótt um atvinnuleysisbætur innan þeirra tímamarka sem getið er í 1. og 2. mgr. 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar enda starfaði hann í Danmörku eftir 7. apríl 2010.

Atvinnuleysistryggingar geymast ekki á Íslandi í tilvikum sem þessum, sbr. lokamálsgrein 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þetta þýðir með öðrum orðum að frá og með 7. apríl 2010, þá giltu fyrst og fremst reglur danskra laga um stöðu kæranda á vinnumarkaði, ef til þess kæmi að hann missti starf sitt. Af þessu leiðir að hin kærða ákvörðun var rétt að því leyti sem réttarstaða kæranda ákvarðaðist af 43. og 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þ.e. á grundvelli þessara lagaákvæða átti kærandi ekki rétt til að fá greiddar atvinnuleysistryggingar.

Sú staðreynd að kærandi hafi, 19. október 2010, ekki átt rétt til greiðslna atvinnuleysisbóta á grundvelli 43. og 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, haggar því ekki að við töku hinnar kærðu ákvörðunar bar Vinnumálastofnun að horfa til þágildandi 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sú skylda stofnunarinnar var meðal annars ótvíræð með hliðsjón af lokamálslið 2. mgr. 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þ.e. líta varð á umsókn kæranda, frá 19. október 2010, sem nýja umsókn í skilningi 9. gr. laganna. Afgreiða bar umsóknina á grundvelli meginreglna um ávinnslutímabil launamanna, sbr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem og 47. gr. sömu laga.

Venjulega, þegar ákvörðun hins lægra setts stjórnvalds er háð annmarka af þessu tagi, er nauðsynlegt af hálfu hins æðra setts stjórnvalds að vísa málinu aftur til hins lægra setta til löglegrar meðferðar, svo kærandi geti notið lögbundins réttar síns til að fá stjórnvaldsákvörðun endurskoðaða. Í þessu tiltekna máli verður hins vegar til þess að líta að langt er um liðið síðan það hófst og að Vinnumálastofnun hefur meðal annars í greinargerð sinni fyrir úrskurðarnefndinni reifað málið út frá 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í framhaldi af greinargerðinni lagði kærandi fram frekari gögn um vinnu sína í Danmörku og stöðu mála þar í landi. Þetta þykir réttlæta að málið verði afgreitt hér hjá úrskurðarnefndinni á grundvelli annarra lagareglna en þeirra sem réðu hinni kærðu ákvörðun.

Umsókn kæranda um atvinnuleysistryggingar er frá 19. október 2010, eins og áður hefur komið fram. Ávinnslutímabil atvinnuleysistrygginga launamanna er að jafnaði tólf mánuðir frá umsóknardegi, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi átti ekki rétt til þess að geyma atvinnuleysistryggingar, sbr. lokamálslið 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Skoða verður því hvort hann hafi öðlast rétt til greiðslna atvinnuleysisbóta á grundvelli þeirra starfa sem hann sinnti á tímabilinu 20. október 2009 til 19. október 2010.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 1. nóvember 2009 og þáði atvinnuleysisbætur frá því tímamarki fram til mars 2010 þegar hann hóf störf í Danmörku. Af þessu leiðir að störf hans á íslenskum vinnumarkaði, á ávinnslutímabilinu, gátu ekki tryggt honum rétt til greiðslna atvinnuleysisbóta. Hins vegar kann hann að eiga rétt til þess að fá störf sín í Danmörku metin samkvæmt þágildandi 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en ákvæðið í heild sinni var svohljóðandi:

 Þegar umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur starfað á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. er Vinnumálastofnun heimilt að taka tillit til starfstímabila hans sem launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings, sbr. a- og b-lið 3. gr., í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum á ávinnslutímabilinu við mat á atvinnuleysistryggingu hans enda hafi störf hans í því ríki veitt honum rétt samkvæmt lögum þess um atvinnuleysistryggingar.

Umsækjandi skal láta tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðru aðildarríki fylgja með umsókn um atvinnuleysisbætur skv. 9. gr.

Þegar umsækjandi um atvinnuleysisbætur, sem flytur til Íslands frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Noregi eða Svíþjóð, hefur starfað hér á landi á síðastliðnum fimm árum frá móttökudegi umsóknar í þeim mæli að hann hefði talist tryggður samkvæmt lögum þessum þarf ekki að uppfylla það skilyrði 1. mgr. að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði a.m.k. þrjá mánuði á ávinnslutímabili svo að heimilt sé að taka tillit til starfstímabila hans í þessum ríkjum. Hið sama á við um þá sem flytja til Íslands frá framangreindum ríkjum og hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur hér á landi á næstliðnum fimm árum frá móttökudegi umsóknar hjá Vinnumálastofnun.

Ljóst er að kærandi uppfyllir öll skilyrði 1. og 3. mgr. ákvæðisins nema það sem lýtur að því að störf hans í Danmörku, á tímabilinu 1. mars til 14. október 2010, veittu honum ekki rétt til að fá greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt dönskum lögum. Þetta byggir á því að kærandi greiddi ekki í þar til bæran sjóð til að eiga slíkan rétt, sbr. vinnuveitendavottorð, dags. 22. nóvember 2010 og yfirlitsblað dönsku Vinnumálastofnunarinnar um forsendur þess að eiga rétt til greiðslna úr hinum danska atvinnuleysistryggingasjóði.

Með hliðsjón af framangreindu verður að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 6.desember 2010 í máli A um synjun á greiðslu atvinnuleysisbóta er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum